Saturday, December 13, 2008

Slappir og sljóir

Skrýtin talning í frétt net-DV af fundinum á Austurvelli í dag:
Eitt til tvö þúsund manns tóku þátt....
Það er næstum því eins og að segja: það var annað hvort 1 eða 2.

Enn eitt dæmið um slappa og sljóa þjónustu íslenskra fjölmiðla.

Rangar upplýsingar um blaðsíðutöl (sem ekki sjást)? Einhverjar fleiri rangar upplýsingar?

Á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag er fréttastubbur neðarlega til hægri á síðunni með fyirsögninni:

Ráðherrarnir
segi ekki af sér

... og síðan vísað á bls. 72 um nánara efni.

Í Fréttablaðinu er oft erfitt að leita að blaðsíðutölum því auglýsingar og myndefni af frægu fólki tekur oft plássið og tölustaf sleppt. En nú fannst bls. 73 og fyrir framan og aftan var ekkert um þessa frétt. Blaðið er þykkt af auglýsingum og efni og þar sem ég hef margt þarfara við tímann að gera, en að leita í blaði sem gefur rangar upplýsingar um efnisniðurröðun, þá veit ég ekki meira um þetta mál.

Fyrir ekki svo löngu síðan var hver stafur um íslenska póltík lesinn á þessu heimili, í öllum prentmiðlun.

En nú þarf að forgangsraða og eru blöðin fyrir löngu komin aftar í röðina og lesast ekki á hverjum degi.
  • Ástæðan er sú að blogg-miðlar gefa ítarlegri fréttir og fyrr.
  • Annað er að dagblöðin þjónusta illa s.s. með villandi upplýsingum um uppröðun efnis og vöntun á þeirri sjálfsögðu þjónustu að birta blaðsíðutöl sem vitnað er til.
  • Í þriðja lagi vantraust: eru fréttirnar lygi vegna þessa að blaðamenn og fréttastjórar þjóna frekar eiganda sínum en lesendum?
Ég er orðin af-vön daglegum fréttaflutningi blaða. Ruglingur hönnunar veldur pirringi lesenda og lesendur fara annað.

Friday, December 12, 2008

Hellingur af ólesnum pappír

Mogginn er mörg blöð. Þau eru innaní hvert öðru. Ég hef þann vana að þegar kemur að íþróttum, þá tek ég alla bókina (eins og það heitir á þýsku), eða aukablaðið og hendi því. Ég veit að innan í íþróttablaðinu eru önnur aukablöð og ég nenni aldrei að gá hvaða blöð þetta eru, ég bara hendi þeim. Þegar ég var áskrifandi að mogganum í sumar, þá ákvað ég einu sinni að skoða hvað væri þarna innaní, og það var í það skiptið blað fyrir börn. Og þar sem barnabarnið mitt er of lítið til að gera krossgátur, þá ákvað ég að það væri í lagi að halda áfram að henda íþróttablaðinu og öllu því sem það hefði að geyma, í ruslið.

Moggi gærdagsins, sem settur var ókeypis í alla póstkassa, alla vega í minni blokk, var óvenju þykkur í miðjunni. Svo þegar ég kom að íþróttum, þá henti ég heilum helling af pappír.

Thursday, December 11, 2008

Ókeypis Moggi—forsíðan klúður

Er búin að fletta og lesa þó nokkuð af ókeypis mogganum í dag. Aðsendar greinar aftur komnar í gamla lúkkið. Blaðsíðurnar þ.a.l. þungar og ekki eins mikið efni. Rosa mikið af minningargreinum. Datt inn í tvær. Vani frá því ég bjó erlendis. Þegar kom blaðapakki að heiman var lesinn hver einasti stafur í öllum blöðum.

Forsíða er soldið furðuleg. Ég byrjaði að lesa fyrirsögn með stærsta letrinu, var svohljóðandi: Mannréttindum fólks stefnt í hættu
Er ekki nóg að segja mannréttindi frekar en mannréttindi fólks?
En þegar ég var búin að lesa greinina, þá skannaði ég restina af forsíðunni, las litlar fyrirsagnir með úrdrætti innan úr efni blaðsins, skoðaði myndina af risalúðu (lúðum) og sá svo texta með fyrirsögn efst til hægri, fyrir ofan mannréttinda-fréttina. Les þennan texta og sé þá að þetta er löng yfirfyrirsögn, eða risa-inngangur að aðalfrétt forsíðu Morgunblaðsins sem ég hafði lesið fyrst. Mikið klúður, hönnun forsíðu moggans í dag. They are loosing it man

Tuesday, December 9, 2008

Er hægt að mæla almenningsálit?

Hvernig mælir kona almenningsálit?
Ég ætla að fara af stað með þá tilraun að reyna að bera saman
  • það sem kemur fram í hefðbundnum fjölmiðlum um það sem er helst í fréttum,
  • hvað fólk segir á bloggsíðum og bloggsíðum hvers annars,
  • það sem ég heyri á fólki á vinnustað og í því umhverfi sem ég hrærist.
Mogginn sagði sómasamlega frá mótmælunum í Alþingishúsinu á forsíðu. Sómasamlega vegna þess að þeir segja frá hópnum, hvað hann kallar sig og hvað hann vildi. Það er fréttaflutningur sem þarf alltaf að viðhafa. Segja frá baksviði, sem í þessu tilfelli er óánægja fólksins sem framkvæmir svona verknað.

Í dag spurðist ég fyrir í kringum mig hvað fólki fyndist um mótmælin á Alþingi í gær.

Gott mál.
Ég er ekki hissa.
Loksins einhver manndómur í þessu landi.


Þetta var úr samtölum.
---------
Ef Sif varð svona hrædd, þýðir það að hún sé taugaveikluð? Eru alþingismenn kannski að skynja að andrúmsloftið í þjóðfélaginu er lævi blandið?

Sunday, December 7, 2008

Vantar í dagblöð: endir á greinar og upplýsingar á baksíður.

Af hverju eru ekki dagsetningar á baksíðum dagblaðanna?
Og annað mál:
Ég venst því aldrei að vera að lesa og endinn vantar á textann. Einu sinni var ég að lesa Mannlíf og það vantaði rest á grein, hversu mikið veit ég ekki. En ég skrifaði e-mail og fékk afsökunarbeiðni frá Reyni ritstjóra þar sem hann sagði að tæknileg mistök hefðu gerst í prentsmiðju! En ég hef aldrei keypt blaðið síðan og veit því ekki hvort mikið vantaði á greinina.
En hitt veit ég að mistök gerast annað hvort á hönnunarstigi, eða í millistigi hönnunar og prentsmiðju.

En í Fréttablaði dagsins datt ég um litla frétt um Cicero. Og Cicero er minn maður í faginu. Punktastærð í letri byggir á Cicero kerfi. 12 pt eru einn Cicero. Og svo datt botninn úr. Ég í miðju kafi í spennandi sögunni og...
Ég leita bak við innblaðið en nei, textinn klárast bara í miðri setningu. Í þessu tilfelli bagalegt því náðst hafði að byggja upp spennu. Þetta hvetur mig ekki til að lesa blaðið á hverjum degi. Ég vil geta treyst fréttamiðli og traust byggir ekki eingöngu á efni og innihaldi. Það byggir líka á því að ég sé ekki skilin eftir í lausu lofti, inni í miðju upplýsingaflæði.

Eru pappírsmiðlar í dauðateygjunum?

Frá bankahruni í byrjun október hef ég fylgst með öllum fréttum, báðum dagblöðunum, Mogganum og Fréttablaðinu, las aðalbloggarana og hlustaði og horfði á fréttir ljósvakamiðlanna. Keypti meira að segja Frjálsa verslun og Mannlíf! Ég varð upptekin af að fylgjast með fréttum en það hef ég ekki gert lengi, var búin að vera í fréttapásu í mörg ár og náði síbyljunni úr eyrunum.

Svo þurfti ég að fara að sinna vinnunni betur. Fór þá að forgangsraða og velja betur fréttamiðlana sem ég fylgist með á hverjum degi. Nú er svo komið að suma daga sæki ég ekki Fréttablaðið, er hætt að kaupa Moggann og er ekki húkkt á því að heyra í aðalfréttatímum Bylgju og Rúv, Sjónvarpsins og Stöðvar 2.

Miðlarnir sem ég valdi að fylgjast með á hverjum degi eru:
jónas og egill, baldur í Skotlandi, lárahanna, ómar Ragnarsson, teitur í Eimreiðinni og mótmælamiðlarnir í gegnum nýja tíma. Illugi og Gneistinn, Eiríkur og Baldur Kristjánsson.
Ég fylgist með þessum völdu miðlum, og missi ekki af neinu með því að vera bara á vefnum.

Þetta eru miklar breytingar fyrir fagmann í prentiðnaði, sem er sérhæfður í prentmiðlum. En besta leiðin til að skoða hvernig fjölmiðlar virka og breytast, er að skoða sjálfan sig sem lesanda og fréttafíkil. Mun ég halda því áfram hér eftir því sem tíminn leyfir.

Thursday, December 4, 2008

Hægri fréttasíður afhentar auglýsingadeildum fyrir áratugum síðan

Fréttablaðið, fimmtudaginn 4.desember.

Auðvitað skoðum við bara vinstri blaðsíður í fréttahluta blaðsins, því auglýsingadeildir fréttablaðanna fengu fyrir mörgum áratugum síðan yfirráð yfir hægri blaðsíðum.

Fréttasíðurnar eru fyrsti hluti fréttablaðs, bls. 1–16 ca og í Fréttablaðinu er alltaf ein aðalfrétt á síðu, sett í miðjuna, með stærstu fyrirsögninni og venjulega með stærstu mynd síðunnar. Sitt hvorum megin eru fréttir í eindálk og er nú Fréttablaðið farið að taka það upp eftir Mogganum að hafa til skiptis feitt letur í meginmálinu þar. Og ójafnt að aftan. Ég veit ekki af hverju þetta er gert. Enga ástæðu er að sjá og gerir þetta blaðsíðuna ekki minna "dull".

Útlitshönnun fréttahluta Fréttablaðsins er vandræðaminni en í Mogganum og helgast af því að í Fréttablaðinu er alltaf gert ráð fyrir einni aðalfrétt sem fer í miðjuna, með stærsta fyrirsagnaletrið á síðunni og stærsta mynd. Síðan raðast annað efni þar í kring. Er það ákveðin leiðsögn fyrir lesandann, sem getur nú skoðað Fréttablaðið og séð að þetta er alltaf eins í fréttahluta blaðsins, nema auglýsingar frekist í meira pláss og ýti efninu til.

Þetta er vandmeðfarið að því leiti að ef ekki er merkileg frétt í þessu aðalhlutverki á fréttasíðu þá verður fréttin merkileg fyrir það eitt að fá þessa staðsetningu. Dæmi gæti verið fyrirsögn sem læsist: Gúrkuverð hefur staðið í stað í tvo mánuði. Þessi fyrirsögn myndi vekja efnislega athygli bara fyrir staðsetninguna í aðalsæti (vó, gúrkuverð hefur ekkert breyst! Lesanda finnst það ósjálfrátt athyglisvert því hann heldur að það sé merkilegt vegna staðsetningarinnar sem hann er vanur að sé með athyglisverðasta efnið þennan daginn).

Fréttasíðurnar eru semsagt ekki vandræðalegar að því leiti að ekki verður óróleiki hvað varðar loft (hvítt), fleti sem reynt er að fylla út í með stækkandi fyrirsögnum eins og í Mogganum og veldur óróleika á síðum þar. En á móti kemur að útlit fréttasíðna Fréttablaðsins er orðið þreytt, alltaf eins í ótal mörg ár og stundum langdregið að lesa fyrir fréttafíkla. Og aldrei venst ég því að hafa erlendar fréttir blandaðar saman við innlendar.

Monday, November 24, 2008

Dagblaðalook frá 1987 og í lokin: Smá lekkerbissen úr nýjustu Lesbók

Frá 1987–1997 var ég á kafi í blaða-layouti. Í Berlín og á Íslandi.

Til að hvetja mig til að blogga hér þá ætla ég að byrja á því að rifja upp ýmislegt sem mér finnst áhugavert í þeirri þróun sem ég var þátttakandi í þessi ár mín á ritstjórnum blaða.
Aðallega var þetta tækniþróun sem kallaði á breytt vinnubrögð á ritstjórnum. Tæknibreytingar höfðu áhrif á útlit blaðanna og framsetningu frétta. Mest spennandi fannst mér dagblaðaformið með framsetningu frétta, á hverjum degi, alltaf nýtt, alltaf ferskt, alltaf vandað.

Árin 1994–1998 var ég meðlimur í samtökum norrænna blaðahönnuða, Society for New Design. Þessi samtök héldu árlega ráðstefnur þar sem hittist tækni- og ritstjórnarfólk á fréttamiðlum. Öll stærri fréttablöð á Norðurlöndunum voru aðilar að þessum samtökum. Þá þegar voru dagblöðin að missa lesendur og gerðu sér grein fyrir því að þau voru í harðri samkeppni við ljósvakamiðlana og vefinn sem fréttamiðla.
Þó þessi blöð væru í samkeppni hvert við annað innan landanna, sáu þau sér hag í því að vera með sameiginlegan vettvang til að skoða breytingar á markaði. Keyptar eru faglegar rannsóknir á ýmsum málum. Ég man eftir fyrirlestri um breytingar á áskrifendahópum sem dæmi, þar sem fram kom að síaukandi hlutfall heimila hefði konur sem aðalskaffara og ekki líklegt að þær vildu dagblað sem væri með heila blaðsíðu með brjóstaberri konu. En fram að þeim tíma hafði t.d. BT í Danmörku verið með slíka síðu. Einnig héldu þeir saman rannsóknarniðurstöðum á; læsileika leturs, hvernig augað les stafi, uppröðunar efnis á síðu, í hvaða röð les lesandinn áður en hann flettir blaðinu o.fl.

Ég vann í fyrsta skiptið við layout á dagblaðinu die Tageszeitung, taz.de, í V-Berlín.
taz var fyrsta dagblaðið í Þýskalandi sem var í því formati sem við þekkjum hér á Íslandi.
En þá voru öll dagblöð sem komu út á morgnana í Þýskalandi í risa-stóru broti eins og evrópsk fréttablöð eru gjarnan. Þetta byggði á hugmyndum blaðakonunnar Ulrike Meinhof, sem hafði sett fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að gefa út dagblað með útliti síðdegisblaðanna en með alvarlegu og góðu innihaldi. Mikið af myndum eins og æsifregnablöðin gerðu út á, en allt í fullum gæðum, bæði efnislega og útlit. Gera róttækt dagblað aðlaðandi til að höfða til almennings með fréttaflutning sem væri ekki eingöngu að þjóna ríkjandi valdi eins og allir miðlar þess tíma.

Mér hafði aldrei dottið í hug að sækja um layout-starf á Íslandi áður en ég fór til Þýskalands. Ég var nýbúin að taka sveinspróf í setningu og vann í offset-prentstofunni Korpus. Ég var eini setjarinn á svæðinu og setti texta á Compugraphic ljóssetningatölvu. Textinn var lýstur á ljósnæman pappír sem var framkallaður og síðan unnið áfram með á ljósaborði. Spaltarnir skornir til og límdir upp á síður.

Nú verð ég að hætta. Þessi vika er fullbókuð svo varla verður skrifað meira fyrr en í næstu viku.

Smá lekkerbissen í lokin úr nýjustu Lesbók, risastórar fyrirsagnir:

Skáldskapur skapar okkur

Andinn, landið og brandið

Hvað finnst lesendum um þessar fyrirsagnir? Eru þær góðar? Lýsandi? Skemmtilegar? Fátæklegar? Ömurlegar? Andlausar? Ég nenni reyndar ekki að lesa greinarnar, sé til.

Sunday, November 23, 2008

Ég held að það sé hollt að gráta.

Ný Lesbók

Útlit Lesbókar moggans ber vitni um kunnáttustig tæknifólks/hönnuða. Líklega hefur þessi vinna færst úr hendi fagfólks í prentiðnaði yfir til hönnuða sem þekkja ekki venjur lesenda og þróun dagblaðaútlits hvað varðar lestur og læsileika í uppröðun efnis.

Greinilegt er að þeir sem ákveða uppsetningu á efni Lesbókarinnar eru að leita að festu og öryggi. Þeir gera það með leturkössum í lit, sem stilltir eru þannig að orðafjöldi ákvarðar lengd græna litarins en ekki flöturinn sem flöturinn liggur á. Mjög skrýtið og veldur óróleika þar sem kassi brýtur kassa.

Ég er nýbyrjuð að fylgjast reglulega með mogganum eftir áratuga pásu og stenst ekki mátið að nefna hér nokkur atriði sem skipta máli í þessu samhengi.

Reynt er að ná fram fjölbreytni í „týpógrafíu“ (leturmeðferð) með því að hafa meginmál sums staðar feitletrað. Með því bætist við þá þætti sem gera opnuna „blurry“ (blur er óskýrleiki, ruglandi fyrir lesandann).


Aðrir þættir sem eru ruglandi fyrir lesandann eru:

– Það vantar ákveðna leiðsögn um opnuna. Hver eru aðalatriðin?
– Vinstri settur texti (textadálkar ójafnir að aftan)
– Illa orðaðar fyrirsagnir, dæmi: allar, ætlaði að telja upp en þær eru allar ónýtar og sumar með stafsetningarvillum
– Fyrirsagnaletur og uppsetning á fyrirsögnum gefur lítil tækifæri til skemmtilegra leikja (sem er eitt af því sem gefur aðalatriða-leiðsögn um opnu).
– Millifyrirsagnir synda á milli textadálka í stað þess að sitja nær þeim textadálki sem þær tilheyra.
– Myndir myndanna vegna, dæmi: mynd af lógói Fréttablaðsins á bls. 2.

Engin umræða er hér á landi um útlit dagblaða (layout). Ekki eru lengur menntaðir fagmenn á þessu sviði á Íslandi. Grafískir hönnuðir hafa áhuga á bókakápum og auglýsingum en ekki lestri og læsileika leturs. Það voru prentlærðir sem lærðu þessar reglur af meisturum í faginu og þeir voru í prentsmiðjunum.

Ef einhver viðbrögð eru við þessu bloggi þá held ég áfram eftir því sem tími gefst til.
Gott væri að heyra spurningar.

Sunday, November 9, 2008

Nýtt layout í mogganum

Skrýtin uppröðun í mogganum í dag (sunnudag).
Á bls. 12-13 eru 3 viðtöl við Tryggva Þór Herbertsson, fyrrverandi forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, bankastjóra eigin banka og þar til fyrir stuttu efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar í skamman tíma.
Viðtölin eru á einni og sömu opnunni, 2 hlutar á gráum fleti með sér fyrirsögn.
Lesendur dagblaða eru ekki vanir að lesa 3 viðtöl við sama manninn á einni opnu.

Fréttamiðlar búnir að vera lengi í kreppu

Jæja, nú verður enn einu sinni reynt að hefja bloggskrif um fjölmiðla.

Gerðist prufuáskrifandi að mogganum. Kemst ekki yfir að lesa hann á hverjum degi þannig að ég mun væntalega ekki láta til leiðast að halda áskrift áfram.
Ég týndi sunnudagsmogganum í gærkvöldi og ætlaði að lesa hann með morgunkaffinu, fann hann ekki strax og var alveg sama! Pældi svo í því, af hverju er mér, sem er fréttafíkill, alveg sama?

Ég verð alltaf soldið sorgmædd þegar ég fletti mogganum. Það vantar góðar fréttir um það sem er efst á baugi í samfélaginu. Þeir eru aldrei með nýjar, ferskar fréttir af því sem er að gerast.
Forsíðufréttir í dag sunnudag: Leikmunaerfiðleikar í leikhúsi(?) og álit fyrrverandi efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar á: kjörumhverfi fyrir spillingu(?). Þetta er einn af þeim mönnum sem verða til rannsóknar þegar gert verður upp og mogginn lætur eins og þarna fari málsmetandi maður sem eigi að ráðleggja fólki!

Monday, October 13, 2008

Grautarhugsun fjölmiðla

Nú ætla ég að byrja að blogga aftur því mér finnst svo margt vera óskýrt í upplýsingagjöf hjá íslenskum fjölmiðlum.
Sjáum hvað setur.

Thursday, April 17, 2008

Eiríkur Guðmundsson um Kastljós-hórarí

...í Víðsjá 17.4.08 (gamla gufan, allra fyrst í þættinum)

Pissufrétt á forsíðu 24ra stunda

Kannski er ég bara svona tepruleg, en að spandera plássi á forsíðu fréttablað í frétt um áætlaða pissuskálaframleiðslu er einhvernveginn svo.... eitthvað ! Var ekkert merkilegra í gangi þennan daginn?

Wednesday, April 16, 2008

Anal-forsíða 24-stunda

Og enn er forsíða 24-stunda á anal-plani:
Salerni
eru ekki
símaheld

24 stundir birtir oft skrýtnar fyrirsagnir á forsíðu. Minnir á Skakka turninn sem gefur sig ekki út fyrir að vera fréttablað eins og 24 stundir gera. Skakki turninn birtir skrýtnar fréttir og er þ.a.l. oft með skrýtnar fyrirsagnir. En 24 stundir birta ótrúlega skrýtnar fyrirsagnir.

Saturday, April 12, 2008

Hver býr til fyrirsagnir á 24 stundum?

Níðingar
í klóm
Interpol

Að vera í klóm einhverra er lýsing á því að vera saklaust fórnarlamb. Alls ekki viðeigandi notkun í þessari fyrirsögn.

Tuesday, April 8, 2008

Er ekkert merkilegt að gerast á Íslandi?

Mér finnst leiðinlegt að fletta dagblöðunum undanfarið. Risastórt letur á fyrirsögnum og mér finnst ég hafa séð þetta allt áður! Ekkert nýtt,

og þó.

Eindálkur í mogga í dag:

Frá haga
til maga á
öllu EES

Frá haga til maga er einhvernveginn svo frískandi að sjá. Gefur í skyn: lífrænt, heilbrigði, hollusta. En er endilega hollt að fá grænmeti úr portúgölskum haga alla leið í íslenskan maga?

En

forsíðufréttir verða æ asnalegri. Forsíðufrétt um vinnulag erlends þýðanda á erlendri bók? (24 stundir 8.apríl 2008)

Forsíðufyrirsagnir dagblaðanna eru með svo stóru letri að lesandi upplifir þær sem öskur:

SMYGL Á BRÉFI OLLI LENGD EINANGRUNAR
..og hvað með það? (Fréttablaðið 8.apríl 2008)

ÖLL LÖND LEGGI MEIRA AF MÖRKUM
...að sjálfsögðu. (24 stundir 8.apríl 2008)

ÁTAK GEGN SUBBUSKAP BÍLSTJÓRA Í MIÐBÆ?
Allir vita að íslensk yfirvöld eru góð í átökum. Þetta býður upp á framhaldsfrétt eftir fundinn þegar búið er að ákveða átakið og er þá hægt að sleppa spurningamerkinu.

Wednesday, April 2, 2008

Forsíðumynd af hundaskít

Forsíðumynd í þremur dálkum á dagblaði sem hefur sagst ætla að miða fréttaflutning sinn við að flytja efnið nær lesendum sínum (24 stundir, 27.mars):


Wednesday, March 19, 2008

Smátt letur á fréttatitlum

Ég get aldrei lesið það sem stendur til skýringar, á hvorugri stöðinni.
Sitjandi í sófanum, með stjórt sjónvarpstæki og ný gleraugu.




















Tuesday, March 18, 2008

Hvað segja neytendur?

Af hverju tala fjölmiðlar ekki við almenna neytendur um ástandið í efnahagsmálum? Neytendur sem þurfa að borga meira vegna ástandsins. Bankafulltrúinn huggaði okkur með því að bankarnir myndu ekki bera skaða af! Höfum við meir áhyggjur af því heldur en hvort við eigum fyrir mánaðarlegum afborgunum af íbúðinni?

Sunday, March 16, 2008

Er þetta frétt, tilkynning eða auglýsing?












Neytendavaktin er framarlega í 24 stundum.
Það er tvídálkur neðst á síðu og þar er alltaf mynd af manneskju og nafnið hennar með.
Ég skil aldrei þennan dálk! Hvað er þessi manneskja að gera þarna?
En þegar Jóhannes birtist sjálfur þá fattaði ég loksins: ókei, þetta hlýtur að vera manneskja frá Neytendasamtökunum.
Er myndbirtingin til þess gerð að segja okkur að starfsmenn blaðsins vinni ekki upplýsingarnar sjálfir? Eða er þetta auglýsing?

Hver?















Þessi skemmtilega og frábærlega vel prentaða mynd var í mogganum um daginn. Ég er Reykvíkingur, þekkti umhverfið og stöðvaði brásið í gegnum blaðið. Fannst forvitnilegt myndefnið en þar eru stórvirkar vinnuvélar að grafa í Öskjuhlíðinni. Ég las því allan textann sem fylgdi myndinni en endaði í lausu lofti og með spurningar í höfðinu: Hvaða háskóli er að byggja þarna? Í textanum er bara sagt frá háskóla sem byggir þarna og svo er sagt frá byggingarfyrirtækinu. Í gegnum huga fávísrar konu flaug: Bifröst, HÍ, HR?

Ósmekkleg forsíðufrétt

Fréttin á forsíðu 24stunda í dag um konuna sem greri föst við klósettsetu er skrýtin á forsíðu fréttablaðs sem vill láta taka sig alvarlega. Svona frétt á heima í skemmtihluta blaðs sem er aftan við miðju eða þá í sérstökum blöðum um harmleiki.
Og birt er mynd af klósetti, efst til hægri á forsíðu fréttablaðs sem prentað er í hundrað þúsund eintökum! Við vitum öll hvernig klósett líta út.

Dagblöðum hrósað í hástert

Í Kastljósi um daginn hrósaði auglýsingakona íslenskum dagblöðum í hástert, þau væru svo flott. Þetta var í tengslum við verðlaunaafhendingu um bestu auglýsinguna held ég. Konan hlýtur að hafa verið að meina flotta prentun á dagblöðunum. Vissulega eru íslensku blöðin vel prentuð og liturinn kemur vel út.

Á sama tíma og þetta var, hélt ég fyrirlestur um það hvað íslensk dagblöð væru mikil grautur og sýndi fram á það:

Uppröðun, hönnun, leturmeðferð og fyrirsagnagerð í graut.
Áratugahefðir í textameðferð og vöndun textauppsetningar, til að lesandi sé fljótur að lesa, er búið eða verið að henda út um gluggann.
Vöntun er á prófarkalestri, erfitt fyrir lesanda að sjá hvað er ritstjórnarefni (efni unnið að starfsmönnum blaðanna) og hvað er aðsent. Oft vantar endinn á greinar, eða texti hverfur bakvið myndir.

Ég mun sýna fram á þetta hér í bloggi mínu, því þessu linnir ekki: Dagblöðin bara versna og er það geggjað þegar þau eru í mikilli varnarbaráttu gagnvart ljósvakamiðlum. Unga kynslóðin kaupir ekki dagblöð og les ekki fréttablöð.

Ætli auglýsingakonan hafi verið svona yfirborðsleg að hrósa dagblöðunum til að vera innundir hjá þeim? Alveg sama þó hrósið sé út í hött?