Saturday, December 13, 2008

Slappir og sljóir

Skrýtin talning í frétt net-DV af fundinum á Austurvelli í dag:
Eitt til tvö þúsund manns tóku þátt....
Það er næstum því eins og að segja: það var annað hvort 1 eða 2.

Enn eitt dæmið um slappa og sljóa þjónustu íslenskra fjölmiðla.

Rangar upplýsingar um blaðsíðutöl (sem ekki sjást)? Einhverjar fleiri rangar upplýsingar?

Á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag er fréttastubbur neðarlega til hægri á síðunni með fyirsögninni:

Ráðherrarnir
segi ekki af sér

... og síðan vísað á bls. 72 um nánara efni.

Í Fréttablaðinu er oft erfitt að leita að blaðsíðutölum því auglýsingar og myndefni af frægu fólki tekur oft plássið og tölustaf sleppt. En nú fannst bls. 73 og fyrir framan og aftan var ekkert um þessa frétt. Blaðið er þykkt af auglýsingum og efni og þar sem ég hef margt þarfara við tímann að gera, en að leita í blaði sem gefur rangar upplýsingar um efnisniðurröðun, þá veit ég ekki meira um þetta mál.

Fyrir ekki svo löngu síðan var hver stafur um íslenska póltík lesinn á þessu heimili, í öllum prentmiðlun.

En nú þarf að forgangsraða og eru blöðin fyrir löngu komin aftar í röðina og lesast ekki á hverjum degi.
  • Ástæðan er sú að blogg-miðlar gefa ítarlegri fréttir og fyrr.
  • Annað er að dagblöðin þjónusta illa s.s. með villandi upplýsingum um uppröðun efnis og vöntun á þeirri sjálfsögðu þjónustu að birta blaðsíðutöl sem vitnað er til.
  • Í þriðja lagi vantraust: eru fréttirnar lygi vegna þessa að blaðamenn og fréttastjórar þjóna frekar eiganda sínum en lesendum?
Ég er orðin af-vön daglegum fréttaflutningi blaða. Ruglingur hönnunar veldur pirringi lesenda og lesendur fara annað.

Friday, December 12, 2008

Hellingur af ólesnum pappír

Mogginn er mörg blöð. Þau eru innaní hvert öðru. Ég hef þann vana að þegar kemur að íþróttum, þá tek ég alla bókina (eins og það heitir á þýsku), eða aukablaðið og hendi því. Ég veit að innan í íþróttablaðinu eru önnur aukablöð og ég nenni aldrei að gá hvaða blöð þetta eru, ég bara hendi þeim. Þegar ég var áskrifandi að mogganum í sumar, þá ákvað ég einu sinni að skoða hvað væri þarna innaní, og það var í það skiptið blað fyrir börn. Og þar sem barnabarnið mitt er of lítið til að gera krossgátur, þá ákvað ég að það væri í lagi að halda áfram að henda íþróttablaðinu og öllu því sem það hefði að geyma, í ruslið.

Moggi gærdagsins, sem settur var ókeypis í alla póstkassa, alla vega í minni blokk, var óvenju þykkur í miðjunni. Svo þegar ég kom að íþróttum, þá henti ég heilum helling af pappír.

Thursday, December 11, 2008

Ókeypis Moggi—forsíðan klúður

Er búin að fletta og lesa þó nokkuð af ókeypis mogganum í dag. Aðsendar greinar aftur komnar í gamla lúkkið. Blaðsíðurnar þ.a.l. þungar og ekki eins mikið efni. Rosa mikið af minningargreinum. Datt inn í tvær. Vani frá því ég bjó erlendis. Þegar kom blaðapakki að heiman var lesinn hver einasti stafur í öllum blöðum.

Forsíða er soldið furðuleg. Ég byrjaði að lesa fyrirsögn með stærsta letrinu, var svohljóðandi: Mannréttindum fólks stefnt í hættu
Er ekki nóg að segja mannréttindi frekar en mannréttindi fólks?
En þegar ég var búin að lesa greinina, þá skannaði ég restina af forsíðunni, las litlar fyrirsagnir með úrdrætti innan úr efni blaðsins, skoðaði myndina af risalúðu (lúðum) og sá svo texta með fyrirsögn efst til hægri, fyrir ofan mannréttinda-fréttina. Les þennan texta og sé þá að þetta er löng yfirfyrirsögn, eða risa-inngangur að aðalfrétt forsíðu Morgunblaðsins sem ég hafði lesið fyrst. Mikið klúður, hönnun forsíðu moggans í dag. They are loosing it man

Tuesday, December 9, 2008

Er hægt að mæla almenningsálit?

Hvernig mælir kona almenningsálit?
Ég ætla að fara af stað með þá tilraun að reyna að bera saman
  • það sem kemur fram í hefðbundnum fjölmiðlum um það sem er helst í fréttum,
  • hvað fólk segir á bloggsíðum og bloggsíðum hvers annars,
  • það sem ég heyri á fólki á vinnustað og í því umhverfi sem ég hrærist.
Mogginn sagði sómasamlega frá mótmælunum í Alþingishúsinu á forsíðu. Sómasamlega vegna þess að þeir segja frá hópnum, hvað hann kallar sig og hvað hann vildi. Það er fréttaflutningur sem þarf alltaf að viðhafa. Segja frá baksviði, sem í þessu tilfelli er óánægja fólksins sem framkvæmir svona verknað.

Í dag spurðist ég fyrir í kringum mig hvað fólki fyndist um mótmælin á Alþingi í gær.

Gott mál.
Ég er ekki hissa.
Loksins einhver manndómur í þessu landi.


Þetta var úr samtölum.
---------
Ef Sif varð svona hrædd, þýðir það að hún sé taugaveikluð? Eru alþingismenn kannski að skynja að andrúmsloftið í þjóðfélaginu er lævi blandið?

Sunday, December 7, 2008

Vantar í dagblöð: endir á greinar og upplýsingar á baksíður.

Af hverju eru ekki dagsetningar á baksíðum dagblaðanna?
Og annað mál:
Ég venst því aldrei að vera að lesa og endinn vantar á textann. Einu sinni var ég að lesa Mannlíf og það vantaði rest á grein, hversu mikið veit ég ekki. En ég skrifaði e-mail og fékk afsökunarbeiðni frá Reyni ritstjóra þar sem hann sagði að tæknileg mistök hefðu gerst í prentsmiðju! En ég hef aldrei keypt blaðið síðan og veit því ekki hvort mikið vantaði á greinina.
En hitt veit ég að mistök gerast annað hvort á hönnunarstigi, eða í millistigi hönnunar og prentsmiðju.

En í Fréttablaði dagsins datt ég um litla frétt um Cicero. Og Cicero er minn maður í faginu. Punktastærð í letri byggir á Cicero kerfi. 12 pt eru einn Cicero. Og svo datt botninn úr. Ég í miðju kafi í spennandi sögunni og...
Ég leita bak við innblaðið en nei, textinn klárast bara í miðri setningu. Í þessu tilfelli bagalegt því náðst hafði að byggja upp spennu. Þetta hvetur mig ekki til að lesa blaðið á hverjum degi. Ég vil geta treyst fréttamiðli og traust byggir ekki eingöngu á efni og innihaldi. Það byggir líka á því að ég sé ekki skilin eftir í lausu lofti, inni í miðju upplýsingaflæði.

Eru pappírsmiðlar í dauðateygjunum?

Frá bankahruni í byrjun október hef ég fylgst með öllum fréttum, báðum dagblöðunum, Mogganum og Fréttablaðinu, las aðalbloggarana og hlustaði og horfði á fréttir ljósvakamiðlanna. Keypti meira að segja Frjálsa verslun og Mannlíf! Ég varð upptekin af að fylgjast með fréttum en það hef ég ekki gert lengi, var búin að vera í fréttapásu í mörg ár og náði síbyljunni úr eyrunum.

Svo þurfti ég að fara að sinna vinnunni betur. Fór þá að forgangsraða og velja betur fréttamiðlana sem ég fylgist með á hverjum degi. Nú er svo komið að suma daga sæki ég ekki Fréttablaðið, er hætt að kaupa Moggann og er ekki húkkt á því að heyra í aðalfréttatímum Bylgju og Rúv, Sjónvarpsins og Stöðvar 2.

Miðlarnir sem ég valdi að fylgjast með á hverjum degi eru:
jónas og egill, baldur í Skotlandi, lárahanna, ómar Ragnarsson, teitur í Eimreiðinni og mótmælamiðlarnir í gegnum nýja tíma. Illugi og Gneistinn, Eiríkur og Baldur Kristjánsson.
Ég fylgist með þessum völdu miðlum, og missi ekki af neinu með því að vera bara á vefnum.

Þetta eru miklar breytingar fyrir fagmann í prentiðnaði, sem er sérhæfður í prentmiðlum. En besta leiðin til að skoða hvernig fjölmiðlar virka og breytast, er að skoða sjálfan sig sem lesanda og fréttafíkil. Mun ég halda því áfram hér eftir því sem tíminn leyfir.

Thursday, December 4, 2008

Hægri fréttasíður afhentar auglýsingadeildum fyrir áratugum síðan

Fréttablaðið, fimmtudaginn 4.desember.

Auðvitað skoðum við bara vinstri blaðsíður í fréttahluta blaðsins, því auglýsingadeildir fréttablaðanna fengu fyrir mörgum áratugum síðan yfirráð yfir hægri blaðsíðum.

Fréttasíðurnar eru fyrsti hluti fréttablaðs, bls. 1–16 ca og í Fréttablaðinu er alltaf ein aðalfrétt á síðu, sett í miðjuna, með stærstu fyrirsögninni og venjulega með stærstu mynd síðunnar. Sitt hvorum megin eru fréttir í eindálk og er nú Fréttablaðið farið að taka það upp eftir Mogganum að hafa til skiptis feitt letur í meginmálinu þar. Og ójafnt að aftan. Ég veit ekki af hverju þetta er gert. Enga ástæðu er að sjá og gerir þetta blaðsíðuna ekki minna "dull".

Útlitshönnun fréttahluta Fréttablaðsins er vandræðaminni en í Mogganum og helgast af því að í Fréttablaðinu er alltaf gert ráð fyrir einni aðalfrétt sem fer í miðjuna, með stærsta fyrirsagnaletrið á síðunni og stærsta mynd. Síðan raðast annað efni þar í kring. Er það ákveðin leiðsögn fyrir lesandann, sem getur nú skoðað Fréttablaðið og séð að þetta er alltaf eins í fréttahluta blaðsins, nema auglýsingar frekist í meira pláss og ýti efninu til.

Þetta er vandmeðfarið að því leiti að ef ekki er merkileg frétt í þessu aðalhlutverki á fréttasíðu þá verður fréttin merkileg fyrir það eitt að fá þessa staðsetningu. Dæmi gæti verið fyrirsögn sem læsist: Gúrkuverð hefur staðið í stað í tvo mánuði. Þessi fyrirsögn myndi vekja efnislega athygli bara fyrir staðsetninguna í aðalsæti (vó, gúrkuverð hefur ekkert breyst! Lesanda finnst það ósjálfrátt athyglisvert því hann heldur að það sé merkilegt vegna staðsetningarinnar sem hann er vanur að sé með athyglisverðasta efnið þennan daginn).

Fréttasíðurnar eru semsagt ekki vandræðalegar að því leiti að ekki verður óróleiki hvað varðar loft (hvítt), fleti sem reynt er að fylla út í með stækkandi fyrirsögnum eins og í Mogganum og veldur óróleika á síðum þar. En á móti kemur að útlit fréttasíðna Fréttablaðsins er orðið þreytt, alltaf eins í ótal mörg ár og stundum langdregið að lesa fyrir fréttafíkla. Og aldrei venst ég því að hafa erlendar fréttir blandaðar saman við innlendar.