Tuesday, January 20, 2009

Good riddance

Ég er búin að vera lasin heima í gær og dag. Ég sótti ekki Fréttablaðið en hef lesið vefmiðla og fylgst með fréttum í útvarpi og sjónvarpi. Hef semsagt ekki séð FB og sakna þess ekki.

Ýmislegt í gangi

Sjónvarpið talaði við Össur á Alþingi í dag. Ráðherrann sagði að fólkið væri reitt því það vissi ekki af því að ríkisstjórnin væri að gera ýmislegt s.s. eins og á ríkisstjórnarfundi í morgun, þá hefðu nú verið teknar ákvarðanir um ýmislegt.
Hann var ekki spurður nánar útí það hvað þetta ýmislega væri, né sagði hann frá því.
Þetta er svo dæmigert fyrir íslenska stjórnmála- og fjölmiðlamenn. Fréttamenn spyrja ekki og pólitíkusar segja ekki frá. En segja frá því að "ýmislegt" sé í gangi.

Kjaftað frá ástandinu á Íslandi

[dv.is] Tvöfalt siðferði Moggans kemur á stundum í ljós. Agnes Bragadóttir blaðamaður fjallaði í viðhorfsgrein um samband Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings og prófessors Roberts Wade, sem fyrstur spáði hruni Íslands. Lesa mátti úr orðum blaðamannsins að Wade væri undir sterkum áhrifum af skoðunum Sigurbjargar.
Ætli Agnes sé fúl yfir því að Íslendingurinn Sigurbjörg hafi "kjaftað frá" ástandinu á Íslandi? Og nú vita útlendingar allt um spillinguna hér.

Fréttamenn eyðileggja góðar fréttir

Ég er lasin heima í dag og kveikti á útvarpinu. Heyri þá að bein útsending er frá mótmælunum við Alþingishúsið. Þetta eru dagskrárgerðarmenn rásarinnar, alla vega 2 á vettvangi og einn í útvarpshúsinu. Þeir spjalla saman og leika Revolution með Bítlunum inn á milli. En aðallega voru þeir að tala við mótmælendur og reyna að ná í alþingismenn sem ekki vildu láta ná í sig. Nema Össur tjáði sig að vanda, um ekki neitt.
Eftir ca 20 mínútur af lifandi efni þar sem mótmælendur fengu að tjá sig og sýndi að þar fór fjölbreyttur hópur af fólki, þá kom Broddi fréttamaður inn í sendinguna. Hann fór að stjórna því hvað dagskrárgerðarmenn á vettvangi ættu að spyrja um og hann spurði þá hvað væri að gerast þarna og hinum megin. Þessi annars frábæra útsending koðnaði niður í ekki neitt. Broddi greinilega hærra settur en strákarnir og eyðilagði góðan og lifandi fréttaflutning.