Monday, November 24, 2008

Dagblaðalook frá 1987 og í lokin: Smá lekkerbissen úr nýjustu Lesbók

Frá 1987–1997 var ég á kafi í blaða-layouti. Í Berlín og á Íslandi.

Til að hvetja mig til að blogga hér þá ætla ég að byrja á því að rifja upp ýmislegt sem mér finnst áhugavert í þeirri þróun sem ég var þátttakandi í þessi ár mín á ritstjórnum blaða.
Aðallega var þetta tækniþróun sem kallaði á breytt vinnubrögð á ritstjórnum. Tæknibreytingar höfðu áhrif á útlit blaðanna og framsetningu frétta. Mest spennandi fannst mér dagblaðaformið með framsetningu frétta, á hverjum degi, alltaf nýtt, alltaf ferskt, alltaf vandað.

Árin 1994–1998 var ég meðlimur í samtökum norrænna blaðahönnuða, Society for New Design. Þessi samtök héldu árlega ráðstefnur þar sem hittist tækni- og ritstjórnarfólk á fréttamiðlum. Öll stærri fréttablöð á Norðurlöndunum voru aðilar að þessum samtökum. Þá þegar voru dagblöðin að missa lesendur og gerðu sér grein fyrir því að þau voru í harðri samkeppni við ljósvakamiðlana og vefinn sem fréttamiðla.
Þó þessi blöð væru í samkeppni hvert við annað innan landanna, sáu þau sér hag í því að vera með sameiginlegan vettvang til að skoða breytingar á markaði. Keyptar eru faglegar rannsóknir á ýmsum málum. Ég man eftir fyrirlestri um breytingar á áskrifendahópum sem dæmi, þar sem fram kom að síaukandi hlutfall heimila hefði konur sem aðalskaffara og ekki líklegt að þær vildu dagblað sem væri með heila blaðsíðu með brjóstaberri konu. En fram að þeim tíma hafði t.d. BT í Danmörku verið með slíka síðu. Einnig héldu þeir saman rannsóknarniðurstöðum á; læsileika leturs, hvernig augað les stafi, uppröðunar efnis á síðu, í hvaða röð les lesandinn áður en hann flettir blaðinu o.fl.

Ég vann í fyrsta skiptið við layout á dagblaðinu die Tageszeitung, taz.de, í V-Berlín.
taz var fyrsta dagblaðið í Þýskalandi sem var í því formati sem við þekkjum hér á Íslandi.
En þá voru öll dagblöð sem komu út á morgnana í Þýskalandi í risa-stóru broti eins og evrópsk fréttablöð eru gjarnan. Þetta byggði á hugmyndum blaðakonunnar Ulrike Meinhof, sem hafði sett fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að gefa út dagblað með útliti síðdegisblaðanna en með alvarlegu og góðu innihaldi. Mikið af myndum eins og æsifregnablöðin gerðu út á, en allt í fullum gæðum, bæði efnislega og útlit. Gera róttækt dagblað aðlaðandi til að höfða til almennings með fréttaflutning sem væri ekki eingöngu að þjóna ríkjandi valdi eins og allir miðlar þess tíma.

Mér hafði aldrei dottið í hug að sækja um layout-starf á Íslandi áður en ég fór til Þýskalands. Ég var nýbúin að taka sveinspróf í setningu og vann í offset-prentstofunni Korpus. Ég var eini setjarinn á svæðinu og setti texta á Compugraphic ljóssetningatölvu. Textinn var lýstur á ljósnæman pappír sem var framkallaður og síðan unnið áfram með á ljósaborði. Spaltarnir skornir til og límdir upp á síður.

Nú verð ég að hætta. Þessi vika er fullbókuð svo varla verður skrifað meira fyrr en í næstu viku.

Smá lekkerbissen í lokin úr nýjustu Lesbók, risastórar fyrirsagnir:

Skáldskapur skapar okkur

Andinn, landið og brandið

Hvað finnst lesendum um þessar fyrirsagnir? Eru þær góðar? Lýsandi? Skemmtilegar? Fátæklegar? Ömurlegar? Andlausar? Ég nenni reyndar ekki að lesa greinarnar, sé til.

Sunday, November 23, 2008

Ég held að það sé hollt að gráta.

Ný Lesbók

Útlit Lesbókar moggans ber vitni um kunnáttustig tæknifólks/hönnuða. Líklega hefur þessi vinna færst úr hendi fagfólks í prentiðnaði yfir til hönnuða sem þekkja ekki venjur lesenda og þróun dagblaðaútlits hvað varðar lestur og læsileika í uppröðun efnis.

Greinilegt er að þeir sem ákveða uppsetningu á efni Lesbókarinnar eru að leita að festu og öryggi. Þeir gera það með leturkössum í lit, sem stilltir eru þannig að orðafjöldi ákvarðar lengd græna litarins en ekki flöturinn sem flöturinn liggur á. Mjög skrýtið og veldur óróleika þar sem kassi brýtur kassa.

Ég er nýbyrjuð að fylgjast reglulega með mogganum eftir áratuga pásu og stenst ekki mátið að nefna hér nokkur atriði sem skipta máli í þessu samhengi.

Reynt er að ná fram fjölbreytni í „týpógrafíu“ (leturmeðferð) með því að hafa meginmál sums staðar feitletrað. Með því bætist við þá þætti sem gera opnuna „blurry“ (blur er óskýrleiki, ruglandi fyrir lesandann).


Aðrir þættir sem eru ruglandi fyrir lesandann eru:

– Það vantar ákveðna leiðsögn um opnuna. Hver eru aðalatriðin?
– Vinstri settur texti (textadálkar ójafnir að aftan)
– Illa orðaðar fyrirsagnir, dæmi: allar, ætlaði að telja upp en þær eru allar ónýtar og sumar með stafsetningarvillum
– Fyrirsagnaletur og uppsetning á fyrirsögnum gefur lítil tækifæri til skemmtilegra leikja (sem er eitt af því sem gefur aðalatriða-leiðsögn um opnu).
– Millifyrirsagnir synda á milli textadálka í stað þess að sitja nær þeim textadálki sem þær tilheyra.
– Myndir myndanna vegna, dæmi: mynd af lógói Fréttablaðsins á bls. 2.

Engin umræða er hér á landi um útlit dagblaða (layout). Ekki eru lengur menntaðir fagmenn á þessu sviði á Íslandi. Grafískir hönnuðir hafa áhuga á bókakápum og auglýsingum en ekki lestri og læsileika leturs. Það voru prentlærðir sem lærðu þessar reglur af meisturum í faginu og þeir voru í prentsmiðjunum.

Ef einhver viðbrögð eru við þessu bloggi þá held ég áfram eftir því sem tími gefst til.
Gott væri að heyra spurningar.

Sunday, November 9, 2008

Nýtt layout í mogganum

Skrýtin uppröðun í mogganum í dag (sunnudag).
Á bls. 12-13 eru 3 viðtöl við Tryggva Þór Herbertsson, fyrrverandi forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, bankastjóra eigin banka og þar til fyrir stuttu efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar í skamman tíma.
Viðtölin eru á einni og sömu opnunni, 2 hlutar á gráum fleti með sér fyrirsögn.
Lesendur dagblaða eru ekki vanir að lesa 3 viðtöl við sama manninn á einni opnu.

Fréttamiðlar búnir að vera lengi í kreppu

Jæja, nú verður enn einu sinni reynt að hefja bloggskrif um fjölmiðla.

Gerðist prufuáskrifandi að mogganum. Kemst ekki yfir að lesa hann á hverjum degi þannig að ég mun væntalega ekki láta til leiðast að halda áskrift áfram.
Ég týndi sunnudagsmogganum í gærkvöldi og ætlaði að lesa hann með morgunkaffinu, fann hann ekki strax og var alveg sama! Pældi svo í því, af hverju er mér, sem er fréttafíkill, alveg sama?

Ég verð alltaf soldið sorgmædd þegar ég fletti mogganum. Það vantar góðar fréttir um það sem er efst á baugi í samfélaginu. Þeir eru aldrei með nýjar, ferskar fréttir af því sem er að gerast.
Forsíðufréttir í dag sunnudag: Leikmunaerfiðleikar í leikhúsi(?) og álit fyrrverandi efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar á: kjörumhverfi fyrir spillingu(?). Þetta er einn af þeim mönnum sem verða til rannsóknar þegar gert verður upp og mogginn lætur eins og þarna fari málsmetandi maður sem eigi að ráðleggja fólki!