Frá 1987–1997 var ég á kafi í blaða-layouti. Í Berlín og á Íslandi.
Til að hvetja mig til að blogga hér þá ætla ég að byrja á því að rifja upp ýmislegt sem mér finnst áhugavert í þeirri þróun sem ég var þátttakandi í þessi ár mín á ritstjórnum blaða.
Aðallega var þetta tækniþróun sem kallaði á breytt vinnubrögð á ritstjórnum. Tæknibreytingar höfðu áhrif á útlit blaðanna og framsetningu frétta. Mest spennandi fannst mér dagblaðaformið með framsetningu frétta, á hverjum degi, alltaf nýtt, alltaf ferskt, alltaf vandað.
Árin 1994–1998 var ég meðlimur í samtökum norrænna blaðahönnuða, Society for New Design. Þessi samtök héldu árlega ráðstefnur þar sem hittist tækni- og ritstjórnarfólk á fréttamiðlum. Öll stærri fréttablöð á Norðurlöndunum voru aðilar að þessum samtökum. Þá þegar voru dagblöðin að missa lesendur og gerðu sér grein fyrir því að þau voru í harðri samkeppni við ljósvakamiðlana og vefinn sem fréttamiðla.
Þó þessi blöð væru í samkeppni hvert við annað innan landanna, sáu þau sér hag í því að vera með sameiginlegan vettvang til að skoða breytingar á markaði. Keyptar eru faglegar rannsóknir á ýmsum málum. Ég man eftir fyrirlestri um breytingar á áskrifendahópum sem dæmi, þar sem fram kom að síaukandi hlutfall heimila hefði konur sem aðalskaffara og ekki líklegt að þær vildu dagblað sem væri með heila blaðsíðu með brjóstaberri konu. En fram að þeim tíma hafði t.d. BT í Danmörku verið með slíka síðu. Einnig héldu þeir saman rannsóknarniðurstöðum á; læsileika leturs, hvernig augað les stafi, uppröðunar efnis á síðu, í hvaða röð les lesandinn áður en hann flettir blaðinu o.fl.
Ég vann í fyrsta skiptið við layout á dagblaðinu die Tageszeitung, taz.de, í V-Berlín.
taz var fyrsta dagblaðið í Þýskalandi sem var í því formati sem við þekkjum hér á Íslandi.
En þá voru öll dagblöð sem komu út á morgnana í Þýskalandi í risa-stóru broti eins og evrópsk fréttablöð eru gjarnan. Þetta byggði á hugmyndum blaðakonunnar Ulrike Meinhof, sem hafði sett fram þá hugmynd að nauðsynlegt væri að gefa út dagblað með útliti síðdegisblaðanna en með alvarlegu og góðu innihaldi. Mikið af myndum eins og æsifregnablöðin gerðu út á, en allt í fullum gæðum, bæði efnislega og útlit. Gera róttækt dagblað aðlaðandi til að höfða til almennings með fréttaflutning sem væri ekki eingöngu að þjóna ríkjandi valdi eins og allir miðlar þess tíma.
Mér hafði aldrei dottið í hug að sækja um layout-starf á Íslandi áður en ég fór til Þýskalands. Ég var nýbúin að taka sveinspróf í setningu og vann í offset-prentstofunni Korpus. Ég var eini setjarinn á svæðinu og setti texta á Compugraphic ljóssetningatölvu. Textinn var lýstur á ljósnæman pappír sem var framkallaður og síðan unnið áfram með á ljósaborði. Spaltarnir skornir til og límdir upp á síður.
Nú verð ég að hætta. Þessi vika er fullbókuð svo varla verður skrifað meira fyrr en í næstu viku.
Smá lekkerbissen í lokin úr nýjustu Lesbók, risastórar fyrirsagnir:
Skáldskapur skapar okkur
Andinn, landið og brandið
Hvað finnst lesendum um þessar fyrirsagnir? Eru þær góðar? Lýsandi? Skemmtilegar? Fátæklegar? Ömurlegar? Andlausar? Ég nenni reyndar ekki að lesa greinarnar, sé til.
No comments:
Post a Comment