Thursday, December 4, 2008

Hægri fréttasíður afhentar auglýsingadeildum fyrir áratugum síðan

Fréttablaðið, fimmtudaginn 4.desember.

Auðvitað skoðum við bara vinstri blaðsíður í fréttahluta blaðsins, því auglýsingadeildir fréttablaðanna fengu fyrir mörgum áratugum síðan yfirráð yfir hægri blaðsíðum.

Fréttasíðurnar eru fyrsti hluti fréttablaðs, bls. 1–16 ca og í Fréttablaðinu er alltaf ein aðalfrétt á síðu, sett í miðjuna, með stærstu fyrirsögninni og venjulega með stærstu mynd síðunnar. Sitt hvorum megin eru fréttir í eindálk og er nú Fréttablaðið farið að taka það upp eftir Mogganum að hafa til skiptis feitt letur í meginmálinu þar. Og ójafnt að aftan. Ég veit ekki af hverju þetta er gert. Enga ástæðu er að sjá og gerir þetta blaðsíðuna ekki minna "dull".

Útlitshönnun fréttahluta Fréttablaðsins er vandræðaminni en í Mogganum og helgast af því að í Fréttablaðinu er alltaf gert ráð fyrir einni aðalfrétt sem fer í miðjuna, með stærsta fyrirsagnaletrið á síðunni og stærsta mynd. Síðan raðast annað efni þar í kring. Er það ákveðin leiðsögn fyrir lesandann, sem getur nú skoðað Fréttablaðið og séð að þetta er alltaf eins í fréttahluta blaðsins, nema auglýsingar frekist í meira pláss og ýti efninu til.

Þetta er vandmeðfarið að því leiti að ef ekki er merkileg frétt í þessu aðalhlutverki á fréttasíðu þá verður fréttin merkileg fyrir það eitt að fá þessa staðsetningu. Dæmi gæti verið fyrirsögn sem læsist: Gúrkuverð hefur staðið í stað í tvo mánuði. Þessi fyrirsögn myndi vekja efnislega athygli bara fyrir staðsetninguna í aðalsæti (vó, gúrkuverð hefur ekkert breyst! Lesanda finnst það ósjálfrátt athyglisvert því hann heldur að það sé merkilegt vegna staðsetningarinnar sem hann er vanur að sé með athyglisverðasta efnið þennan daginn).

Fréttasíðurnar eru semsagt ekki vandræðalegar að því leiti að ekki verður óróleiki hvað varðar loft (hvítt), fleti sem reynt er að fylla út í með stækkandi fyrirsögnum eins og í Mogganum og veldur óróleika á síðum þar. En á móti kemur að útlit fréttasíðna Fréttablaðsins er orðið þreytt, alltaf eins í ótal mörg ár og stundum langdregið að lesa fyrir fréttafíkla. Og aldrei venst ég því að hafa erlendar fréttir blandaðar saman við innlendar.

2 comments:

Anonymous said...

Löngu þarft verk að lesa. Hef oft pælt í uppsetningunni. Og svo ekki sé talað um efnistökin, t.d. með gúrkurnar, Bónus kemur líklega fram í fréttinni , þar ódýrastar, þannig að markmiðinu er náð ??

Flottur vefur.
Til lukku

Margrét Rósa Sigurðardóttir said...

Takk fyrir, jú Jón Ásgeir er sölumaður fram í fingurgóma og veit alveg hvernig á að græða peninga og blóðmjólka. Er hann ekki núna að reyna að kaupa moggann líka til viðbótar við Fréttablaðið?